Njótum Íslands saman

Sjáumst við Mývatn! #NjótumSaman

 

Undur Mývatns

Undur Mývatns og nágrennis eru mörg, fjölbreytt og ofboðslega falleg.

Vinsælustu stoppin

Hér eru þeir staðir sem við mælum með að allir skoði á ferðalagi sínu um svæðið. #NjótumSaman

Skútustaðir Pseudocraters with Vindbelgjarfjall in background

1. Skútustaðagígar

 Skútustaðagígar eru gervigígar sem mynduðust við gufusprengingu þegar hraun rann yfir votlendi. Gígarnir eru vinsæll staður til fuglaskoðunar og eru þeir friðlýstir sem náttúruvætti.

2. Hverfjall/fell

 Í Hverfjalli er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu sprengigígamyndana sem getur að líta á Íslandi og talið í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Telja má víst að gígurinn hafi myndast við sprengigos og er aldur þess áætlaður 2800-2900 ár.

Högði við Mývatn

3. Höfði og Klasarnir á Kálfaströnd

Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og Kálfastrandarstrípar en Kálfastrandarvogur og umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.

 

Photo Credit: <a href="https://www.flickr.com/photos/10259776@N00/3672285389/">Stig Nygaard</a> Flickr via <a href="http://compfight.com">Compfight</a> <a href="https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/">cc</a>

4. Dimmuborgir

Dimmuborgir eru sundurtættar hraunborgir með gróðri og kjarri. Í Dimmuborgum gefur að líta hvers konar furðumyndir, gatkletta og smáhella, sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda. Það er ekki síður mikil upplifun að fara í Dimmuborgir yfir vetrartímann og í desember er hægt að heimsækja jólasveinana sem búa þar.

5. Grjótagjá

 Grjótagjá er lítill hellir í Mývatnssveit og var eftirsóttur baðstaður á árum áður. Við jarðhræringarnar á þessum slóðum á árunum 1975-1984 hækkaði hitastig vatnsins svo mjög að ekki hefur verið hægt að baða sig þar síðan. Virkilega skemmtilegt að kíkja ofaní hellinn og láta sig dreyma um að baða sig í þessum flotta helli.

 

Askja Caldera

6. Askja, Herðubreið og Drekagil

Askja er eldstöð, staðsett á hálendinu og er því aðeins aðgengileg yfir sumarmánuðina. Í Öskju er Öskjuvatn en það er dýpsta stöðuvatn á Íslandi og við hliðina á Öskjuvatni er gígurinn Víti. Vatnið í gígnum er enn um 22 gráður og er vinsælt að baða sig þar, enda mikil upplifun. Náttúran er stórbrotin á þessum afskekta stað uppá hálendi Íslands. 
Friðlýst 1978. Askja tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði.
Vegur F88 liggur frá þjóðvegi 1 um Herðubreiðarlindir að Drekagili. Á leiðinni eru tvö vöð sem geta verið ófær minni jeppum. Frá Drekagili liggur vegur F894 að bílastæði nærri Öskju. 

Fjallið Herðubreið er svo tignarlegt að það gengur undir nafninu drottning íslenskra fjalla. Fjallið er svo reglulegt, hreint í línum og fagurskapað að vart finnst líki þess í íslenskri fjallagerð.
Vegurinn að Herðubreið er einungis fær yfir sumartímann.

7. Vaglaskógur

Vaglaskógur er talinn einn stærsti og fegursti skógur landsins. Hann er vinsæll til útivistar og um hann liggja margar skemmtilegar merktar gönguleiðir. Á Vöglum er starfstöð Skógræktarinnar en þar er starfsemi sem felst í umhirðu skóglenda Skógræktarinnar á Norðurlandi, grisjun, úrvinnslu og sölu afurða. Vaglaskógur er um miðbik Fnjóskadals, austan Fnjóskár. Stutt er til Akureyrar frá Vöglum, aðeins um 16 km um Vaðlaheiðargöng.

Hverir Mývatn
Krafla

8. Námafjall og Hverir

Námafjall og umhverfi þess er háhitasvæði. Þétt sprungubelti liggur yfir allt Námafjallssvæðið, en meginuppstreymið er austan við fjallið og hefur það gengið síðustu ár undir nafninu Hverir. Á því svæði eru margir gufu- og leirhverir, en engir vatnshverir. Leirhverirnir eru stórir og áberandi, en gufuhverirnir eru margir borholur sem búið er að hlaða grjóti yfir. Jarðvegur er ófrjór og gróðurlaus á háhitasvæðinu og mjög súr vegna áhrifa hveraloftsins og brennisteins.

Stóra Víti in Krafla, Mývatn

9. Stóra-Víti

 Stóra - Víti er gríðarstór sprengigígur um 300 m í þvermál. Gígurinn myndaðist við mikla gossprengingu við upphaf Mývatnselda árið 1724. Gosið stóð meira og minna samfellt í 5 ár en leirgrauturinn í Víti sauð í meira en heila öld á eftir.
Víti er við Kröflu og er malbikaður vegur þar upp að frá þjóðvegi númer 1.

 10. Grenjaðarstaður

Grenjaðarstaður er glæsilegur torfbær í Aðaldal. Jörðin er landnámsjörð og fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur, og þar var áður starfrækt pósthús. Grenjaðarstaður þótti á sinni tíð mestur og reisulegastur allra bæja í héraðinu, enda um 775 m2 að stærð, einn stærsti torfbær landsins. Elsti hluti hans var reistur árið 1865 en búið var í bænum til 1949.
Árið 1958 var hann opnaður sem byggðasafn með á annað þúsund gripa sem fólk hafði gefið í safnið. Það er einstök upplifun að ganga um bæinn og ímynda sér hvernig fólk lifði þar, bæði fyrir börn og fullorðna.

Vakin er athygli á að aðgengi fyrir fólk í hjólastólum er ekki gott.
Starfsemin í Grenjaðarstað heyrir einnig undir Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Högði við Mývatn Norðurljós 

Sjá meira
Fossarnir

Hér eru upplýsingar um þá fossa sem þú þarft að skoða í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit! #NjótumSaman

Aldeyjarfoss er talinn fegursti fossinn í Skjálfandafljóti. Fagrar stuðlabergsmyndanir ramma inn fossinn og þar er líka að finna marga skessukatla. Vegur liggur alla leið að honum vestan Skjálfandafljóts. Rétt sunnan við Aldeyjarfoss er svo að finna Hrafnabjargafossa.

 Photo Credit: <a href="https://www.flickr.com/photos/26641025@N07/33354165593/">FlickrdeChato</a> Flickr via <a href="http://compfight.com">Compfight</a> <a href="https://creativecommons.org/licenses/by-sa/2.0/">cc</a>

Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður í 4 meginhlutum. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss skartar sínu fegursta allan ársins hring.

Klettar á skeifulaga fossbrúninni greina Goðafoss í tvo meginfossa sem eru 9 og 17 metra háir og steypast fram af hraunhellunni skáhalt á móti hvor öðrum. Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Fyrir þeim sem koma að austan blasir hann við þegar ekið er ofan af Fljótsheiði.

 

Dettifoss er aflmesti foss Íslands. Hann er 44 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Mikilfenglegur foss og smæð mannsins birtist þar óvenju skýrt.
Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí.

Vestanmegin Jökulsár er vegur 862. Hann er fær öllum bílum að Dettifossi. Athugið að hluti af þessum vegi var áður flokkaður sem fjallvegur (frá Vesturdal að Dettifoss) en frá og með 2011 er vegurinn skilgreindur sem malarvegur og því fær öllum bílum. Vegfarendur þurfa þó að miðað ökuhraða við ástand vegarins hverju sinni.

 Photo Credit: <a href="https://www.flickr.com/photos/97006177@N00/36232240706/">Anna & Michal</a> Flickr via <a href="http://compfight.com">Compfight</a> <a href="https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/">cc</a>

Jökulsárgljúfur tilheyra Vatnajökulsþjóðgarði og umhverfi þeirra hafa heillað margan ferðalanginn. Fossasamtæða Jökulsár á Fjöllum með  Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss á sér fáa líka á jörðinni. Stórkostlegt umhverfi Jökulsárgljúfra er mótað af vatni, eldum og ís. Gífurleg hamfarahlaup eru talin hafa myndað og mótað gljúfur, gil, klappir og byrgi. 

 

Sjá meira
Fjölbreytt fuglalíf

Á Mývatni og Laxá er mikið og fjölbreitt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur. Hér eru fimm bestu staðirnir til að skoða fuglalífið umhverfi Mývatn. 
Harlequin Duck

Svæðið er sannkölluð paradís fyrir fuglaunnendur, hvar sem maður staldrar við og stoppar sér maður og heyrir í fuglum, sérstaklega á vatninu sjálfu. Hér er nákvæmari lýsing á því hvar og hvenær er hægt að sjá vissa fugla.  #VisitMyvatn #NjótumSaman

Fyrst má nefna að Fálkinn má oft sjá í kring um vatnið í leit að bráð. Ef keyrt er hringinn í kring um vatnið að þá mælum við með: 
1. Neslandavík, þar sem Fuglasafn Sigurgeirs er að finna. Þar er oft að finna stóra hópa af Skúföndum og Rauðhöfðum. Þetta svæði er líka einstaklega gott til að sjá Gargendur, Duggendur, Lóma, Flórgoða, Grafendur og Toppendur. Frábær staður til fuglaskoðunar og við mælum að sjálfsögðu með því að flestir komi við í Fuglasafninu. 

2. Álar, ef þú heldur áfram til suðurs þegar þú ert kominn framhjá Neslandavíkinni og framhjá bænum Vindbelgur þar finnur þú bílastæði við Álar. Þar eru svipaðir flokkar af fuglum sem að þú sérð í Neslandarvíkinni en þar er líka oft að sjá sjaldgæfari fugla eins og Húsöndina, Hávellu og Himbrima. 

Á leiðinni suður fyrir vatn kemur þí síðan næst að 3. Laxá. Um það bil 50 metrum áður en að þú kemur að brúnni sem liggur yfir Laxá er bílastæði þar sem þú getur síðan gengið að bökkum ánnar. Þar verður þú ekki lengi að finna Straumöndina. Laxá er stærsti bústaður Húsandarinnar og Straumandarinnar á Íslandi. 

Beygðu næst til austur á veg 848 þegar þú ert kominn yfir brúnna. Þá stefnir þú að 4. Skútustöðum og Stakhólstjórn. Þetta er enn einn staðurinn þar sem hægt er að finna fjölmarga fugla. Leggðu bílnum við Skútustaðagíga og skoðaðu fuglana á meðan þú gengur um gígana og Stakhólstjörn. 

5. Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar og gönguferða með allri fjölskyldunni. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og þar er einnig hægt að finna skemmtilegar gönguleiðir. Umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.

Ef að þú hefur áhuga á að skoða fugla á öðrum stöðum að þá bendum við á að það er best að hafa samband við viðeigandi landeigendur. 

 

Sjá meira
Norðurljósin

Það er ekki að ástæðulausu að við köllum okkur norðurljósahöfuðborg Íslands. Mývatn hefur alltaf verið vinsæll staður til að skoða norðurljósin en landslagið og endurspeglun vatnsins gerir norðurljósaupplifunina afar skemmtilega. Það er lítil ljósmengun á svæðinu og mikið landslag sem að, fyrir áhugaljósmyndara eða atvinnuljósmyndara, gerir myndina þeim mun fallegri. Norðurljós sjást vel frá september og út mars. Norðurljós Dimmuborgir

Norðurljós yfir Mývatni við Klasa, Höfða

Sjá meira
  • Jólasveinarnir í Dimmuborgum
    taka á móti gestum í sumar