Dalirnir

Í Þingeyjarsveit er fjöldinn allur af náttúruperlum Íslands, meðal annars Goðafoss, Aldeyjarfoss og Vaglaskógur. Gisti- og afþreyingarmöguleikar eru fjölmargir og staðsetningin fullkomin til þess að koma sér vel fyrir á meðan þú nýtur alls þess sem Norðurland eystra býður upp á. 

Sveitarfélagið er mjög víðfeðmt, allt frá Flatey á Skjálfanda suður undir Vatnajökul. Mannlíf er fjölbreytt og gróskumikið og atvinnuvegir fjölbreyttir; landbúnaður, fiskvinnsla, skógrækt, og ferðaþjónusta. Sveitarfélagið byggist að stóru leyti upp af nokkrum samliggjandi dölum, sem eru þrátt fyrir nálægð ákaflega ólíkir. 

Fnjóskadalur

Flestir kannast við Vor í Vaglaskógi, þar sem lindin niðar og birkihríslan grær. Vaglaskógur er í Fnjóskadal sem er vestasti partur Þingeyjarsveitar. Hann er einn stærsti birkiskógur landsins og að margra mati sá fallegasti. Vaglaskógur er útivistarparadís með fjölmörgum gönguleiðum sem henta öllum aldri. Í skóginum og í nágrenni hans eru frábær tjaldsvæði þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og friðsældin er engri lík. Í 11 km fjarlægð eru Illugastaðir þar sem hægt er að fara í sund og spila mini-golf og stuttu frá er dýragarðurinn Daladýrð. Ef þú vilt fara í hefðbundið golf er hinn margrómaði Lundsvöllur, eftirlæti golfara, rétt sunnan við Vaglaskóg.

Í jaðri skógarins finnur þú gömlu bogabrúna sem er ein elsta steinsteypta bogabrú landsins, byggð 1908. Hún er 55 m löng og var sú lengsta á Norðurlöndunum um langt skeið. Það er fátt sem toppar fallega kvöldsól á brúnni og við mælum með því að rölta yfir hana!

Það er ekki að ástæðulausu að skáldin yrkja um Fnjóskadal, veðursældin svíkur ekki og vert að taka frá nokkra daga og njóta og skoða svæðið.

Flateyjardalur

Úr norðanverðum Fnjóskadal er hægt að keyra norður Flateyjardalsheiði og niður í eyðidalinn Flateyjardal. Frá Þverá í Fnjóskadal út að sjó eru um 35 km. Flateyjardalur er mikið vetrarríki, heiðin er í 220 metra hæð og vegurinn er einungis fær á sumrin. Nauðsynlegt er að vera á jeppa og símasamband er lélegt og stopult. 

Á leiðinni er tignarlegt landslag og rík saga eyðibyggða. Flateyjardalur fór í eyði um miðja 20. öld vegna erfiðra samgangna. Brettingsstaðir var síðasti bærinn til að fara í eyði árið 1953. Í dalnum standa enn þrjú reisuleg hús sem eru notuð sem sumarhús. Flateyjardalur er paradís norðursins og draumaland göngumannsins, kyrrðin er mikil og berjaland gott. Að fara með fjölskylduna og nesti út á Flateyjardal er uppskrift að góðum degi!

Bárðardalur

Langar þig að skoða nokkra af mögnuðustu fossum landsins? Þá mælum við með Bárðardal enda er hann heimili þriggja fegurstu fossana! Bárðardalur er einn lengsti byggði dalur á Íslandi, teygir sig um 45 kílómetra til suðurs, inn að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns. Dalbotninn er nokkuð sléttur og þakinn grónu hrauni, Bárðardalshrauni, sem er talið um 9000 ára gamalt. Í Bárðardal mætast gamli og nýi tíminn og friðsældin er áþreifanleg. Jökulfljótið Skjálfandafljót rennur niður dalinn miðjan. Fljótið er það fjórða lengsta á landinu, um 180 km og rennur alla leið frá Vatnajökli til sjávar í Skjálfanda. Hinn máttugi Goðafoss er í norðurenda Bárðardals en í suðurendanum eru Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss. 

Þú getur keyrt inn Bárðardal beggja vegna Skjálfandafljóts. Það er brú innarlega í dalnum og við mælum með hringferð. Til þess að komast upp að Aldeyjarfossi og Hrafnabjargafossi þarftu að vera vestan megin við fljótið. Úr Bárðardal kemstu einnig upp á Sprengisand en vertu viss um að vera á hentugum bíl og athugaðu ástand vega áður en þú heldur upp á hálendið.

Aðaldalur

Aðaldalur liggur frá botni Skjálfandaflóa og nær allt suður að Vestmannsvatni, þar sem Reykjadalur tekur við. Við Skjálfandaflóa eru breiðir sandar og Aðaldalshraun þekur mestan hluta sléttlendisins, enda er það um 100 ferkílómetrar að stærð. Hraunið er einstaklega fallegt og víða vel gróið, vaxið birki, eini og lyngi.  

Grenjaðarstaður er glæsilegur torfbær í Aðaldal. Jörðin er landnámsjörð og fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur. Grenjaðarstaður þótti á sinni tíð mestur og reisulegastur allra bæja í héraðinu enda einn stærsti torfbær landsins. Það er einstök upplifun fyrir börn og fullorðna að ganga um bæinn og ímynda sér lífið forðum daga, hví ekki að kíkja í heimsókn? 

Laxá í Aðaldal er önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins og ein þekktasta laxveiðiáin.  Hún á upptök sín í Mývatni sem er í 277 m hæð yfir sjó. Hún rennur um Laxárdal, síðan Aðaldal og fellur til sjávar í Skjálfandaflóa. Fram úr Laxárdal ganga Laxárgljúfur og þar eru Laxárstöðvarnar þrjár sem eru vatnsaflsvirkjanir. Þær standa á litlu svæði neðarlega í Laxárdal, sú neðsta á mótum Laxárdals og Aðaldals. Virkjanasvæðið er einstaklega áhugavert að skoða!

Laxárdalur

Það er erfitt að koma fegurð Laxárdals í orð, það skilja þeir sem þangað fara. Dalurinn er grunnur og liggur á milli lágra heiða. Hraun þekur dalbotninn og lágar brekkurnar eru svo vel grónar að melar og klettar eru sjaldséð fyrirbrigði. Laxá leikur sér um hraunið, byltist í strengjum og liggur í hyljum. Sestu niður í ósnortinni náttúrunni og njóttu andartaksins!

Reykjadalur

Laugar í Reykjadal er þéttbýliskjarni sem hefur byggst upp á jarðhitasvæði. Á Laugum er löng og rík menntahefð. Þar er Framhaldsskólinn á Laugum og skólahald hefur verið samfleytt þar frá árinu 1925 þegar Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. 

Á Laugum er miðstöð stjórnsýslu í Þingeyjarsveit og ýmis önnur þjónusta í boði, svo sem banki, verslun og veitingastaður. Á sumrin er starfrækt hótel og á svæðinu í kring er fjöldi gistiheimila sem eru opin allt árið. Á Laugum er einnig tjaldsvæði, sundlaug og frábær aðstaða til íþróttaiðkunar.