Um svæðið

 

 

Um Mývatn

Mývatn  er um 32 km2 að stærð. Það er mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Meðaldýpi vatnsins er 2,5 m og mesta náttúrulega dýpi aðeins um 4 m. Lífríki Mývatns er einstætt og er nafn vatnsins dregið af þeim aragrúa mýs sem þar er. Talið að þar haldi sig fleiri andategundir en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Í Mývatnssveit er fjölbreytni í náttúrufari mikil og landslag sérstætt, enda mótað af miklum eldsumbrotum. 
 
Mývatn og Laxá eru upphaflega friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxar í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974.  Mývatn og Laxá eru nú vernduð samkvæmt sérstökum lögum nr. 97 frá 9. júní 2004. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Lögin eiga að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða. 
 
Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir. Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár.

 

Þingeyjarsveit

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit varð til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar árið 2022. Íbúar Þingyejarsveitar eru rúmlega 1.400 talsins.

Þingeyjarsveit er landmesta sveitarfélag landsins og státar af einstakri náttúrufegurð og náttúruauðlindum. Sveitarfélagið er sannkölluð útivistarparadís. Atvinnulífið er öflugt með fjölbreyttum möguleikum, m.a. í ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælaframleiðslu. Aðstaða er fyrir hendi fyrir störf án staðsetningar. Þingeyjarsveit leggur áherslu á umhverfismál og sjálfbæranýtingu auðlinda ásamt blómlegu mannlífi.

Í sveitarfélaginu er gróskumikið mannlíf enda atvinnuvegir fjölþættir, s.s. landbúnaður, fræðsla, fiskvinnsla, skógrækt, ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla og margt fleira. Þrír grunnskólar eru í sveitarfélaginu; Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli og Reykjahlíðarskóli. Við grunnskólanna eru tónlistar- og leikskóladeildir. Einnig er einn framhaldsskóli; Framhaldsskólinn á Laugum. Leiklistarstarf og söngur eru í miklum blóma, t.d. á Breiðumýri og í Söngfélaginu Sálubót og Karlakórnum Hreim. Íþróttalíf er kröftugt hjá ungmennafélögum á svæðinu.

Mjög góð aðstaða er til íþróttaiðkunnar á Laugum og í Reykjahlíð, á Laugum er glæsileg sundlaug. Þá er áhugamannagolfvöllur á Laugum sem Efling sér um, einnig er góður golfvöllur í Reykjahlíð. 

www.thingeyjarsveit.is