16. Geitafellshnjúkur - Nykurtjörn

Geitafellshnjúkur með viðkomu við Nykurtjörn.

Hér má finna hnit og ítarlegar upplýsingar um þessa fallegu gönguleið: Wikiloc | Geitafellshnjúkur - Nykurtjörn Trail


Bærinn Geitafell stendur undir Geitafellshnjúk í Reykjahverfi og var bærinn nokkuð afskekktur á árum áður. Þangað áttu ekki aðrir leið að vetrarlagi en Mývetningar og Laxdælir í kaupstaðarferðum.
Gönguleiðin upp á Geitafellshnjúk hefst við hliðið þar sem hægt er að komast upp fyrstu brekkuna. Þar er fallegt útsýni yfir Reykjahverfi og er gengið um móa og mela upp að hnjúknum. Hægt er að byrja hvar sem er en best er auðvitað að nota hliðið til þess að vernda girðingar. Fyrsta brekkan er brött og töluvert erfið en þegar upp hana er komið tekur við léttari ganga um mela. Upp á Geitafellshnjúk er útsýni yfir í Laxárdal og í átt að Hólasandi. Virkilega falleg gönguleið. Upp á toppnum er hringsjá og má sjá þar helstu staðarhætti. Við göngu á hnjúkinn er tilvalið að nýta tækifærið og ganga að Nykurskál þar sem Nykurtjörn stendur og njóta fegurðarinnar sem þar er. Gæta þarf varúðar að fara ekki beint niður af hnjúknum í átt að Nykurtjörn heldur skal labba hrygginn og fara töluvert langt í kring svo ekki verði slysahætta á að falla niður björgin. Gott er svo að enda gönguna með því að ganga hringinn í kringum Nykurskál og fara þar niður en þar er hlið í gegnum girðinguna.

Nykurtjörn er falin perla við Geitafellshnjúk en hún sést ekki frá veginum. Suðaustan við hnjúkinn eru björg og undir þeim er grösug brekka og þar er Nykurtjörn í Nykurskál. Hún er talin vera 11m djúp og vera forn sprengigígur.

Wikiloc | Geitafellshnjúkur - Nykurtjörn Trail