Vetrarhátíð við Mývatn haldin í fyrsta sinn dagana 6. - 8. mars 2020

Helgina 6.-8. mars næstkomandi verður sannkölluð vetrarstemmning í Mývatnssveit en þá verður Vetrarhátíð við Mývatn haldin í fyrsta sinn. Þetta er nokkurs konar bæjarhátíð að vetri til þar sem verður fjölbreytt og spennandi fjölskyldudagskrá alla helgina í hinni fögru Mývatnssveit sem er sannkölluð vetrarparadís á þessum árstíma. Sérstaða Vetrarhátíðar við Mývatn eru þær vetraríþróttir sem verða í öndvegi en þar má nefna hestamótið Mývatn Open - Hestar á ís, Íslandsmeistaramót sleðahundaklúbbs Íslands og svo Mývatnssleðinn þar sem fólk keppir á heimagerðum sleðum á vatninu. Allir þessir viðburðir eiga það sameiginlegt að vera haldnir á ísi lögðu Mývatni. Í ár verður einnig haldið Íslandsmeistaramót í snjókrossi í Kröflu. 

Allir þessir viðburðir verða opnir gestum og gangandi sem vilja koma og fylgjast með þessum viðburðum. Veiðifélag Mývatns mun jafnframt bjóða upp á dorgveiði í Mývatni og íþróttafélagið Mývetningur ætlar að halda opnu gönguskíðaspori alla helgina. Hægt verður að heimsækja sleðahundana og það verður barnabraut fyrir fjölskylduna á Álftabáru, lifandi tónlist og tilboð í gistingu og mat alla helgina. 


Hægt er að skoða dagskránna á www.vetrarhatid.com


Athugasemdir