Lífríkið

Share this

Fuglalíf


Á Mývatni og Laxá er mikið og fjölbreitt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur. Hér eru fimm bestu staðirnir til að skoða fuglalífið umhverfi Mývatn. 
Harlequin Duck

Svæðið er sannkölluð paradís fyrir fuglaunnendur, hvar sem maður staldrar við og stoppar sér maður og heyrir í fuglum, sérstaklega á vatninu sjálfu. Hér er nákvæmari lýsing á því hvar og hvenær er hægt að sjá vissa fugla.  #VisitMyvatn #NjótumSaman

Fyrst má nefna að Fálkinn má oft sjá í kring um vatnið í leit að bráð. Ef keyrt er hringinn í kring um vatnið að þá mælum við með: 
1. Neslandavík, þar sem Fuglasafn Sigurgeirs er að finna. Þar er oft að finna stóra hópa af Skúföndum og Rauðhöfðum. Þetta svæði er líka einstaklega gott til að sjá Gargendur, Duggendur, Lóma, Flórgoða, Grafendur og Toppendur. Frábær staður til fuglaskoðunar og við mælum að sjálfsögðu með því að flestir komi við í Fuglasafninu. 

2. Álar, ef þú heldur áfram til suðurs þegar þú ert kominn framhjá Neslandavíkinni og framhjá bænum Vindbelgur þar finnur þú bílastæði við Álar. Þar eru svipaðir flokkar af fuglum sem að þú sérð í Neslandarvíkinni en þar er líka oft að sjá sjaldgæfari fugla eins og Húsöndina, Hávellu og Himbrima. 

Á leiðinni suður fyrir vatn kemur þí síðan næst að 3. Laxá. Um það bil 50 metrum áður en að þú kemur að brúnni sem liggur yfir Laxá er bílastæði þar sem þú getur síðan gengið að bökkum ánnar. Þar verður þú ekki lengi að finna Straumöndina. Laxá er stærsti bústaður Húsandarinnar og Straumandarinnar á Íslandi. 

Beygðu næst til austur á veg 848 þegar þú ert kominn yfir brúnna. Þá stefnir þú að 4. Skútustöðum og Stakhólstjórn. Þetta er enn einn staðurinn þar sem hægt er að finna fjölmarga fugla. Leggðu bílnum við Skútustaðagíga og skoðaðu fuglana á meðan þú gengur um gígana og Stakhólstjörn. 

5. Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar og gönguferða með allri fjölskyldunni. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og þar er einnig hægt að finna skemmtilegar gönguleiðir. Umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.

Ef að þú hefur áhuga á að skoða fugla á öðrum stöðum að þá bendum við á að það er best að hafa samband við viðeigandi landeigendur. 

Mýflugan

Mývatn er nægilega stórt og vatnsendurnýjun þess mátulega hæg til að lífríki blómstri þrátt fyrir að vera í 278 m hæð yfir sjávarmáli. Á vatnsbotninum er urmull af mýflugulirfum af mörgum tegundum en þær púpa sig og taka á sig mýflugumynd á vissum tímum sumars, einkum í byrjun júní og ágúst. Karlflugurnar safnast í þétta stróka á vatnsbökkum og yfir hólum og hæðum á lognkyrrum dögum. Þessar mýflugur nefnast einu nafni rykmý og eru meinlausar. 

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin skoppar í smáfossum með lygnum pollum á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn, sóleyjum og víði. Þarna eru höfuðból húsandar og straumandar og urriðaveiði er ein sú besta í heimi. Vatnið í Mývatni fær oft á sig græn- eða brúnleitan blæ á sumrin og stafar það af bláþörungum í vatninu. Þeir berast út í Laxá ásamt öðrum sviflífverum og gruggi úr Mývatni og eru megingrundvöllur fæðukeðjunnar. Laxá er frjósamasta straumvatn á Íslandi. Bitmýslirfur sía efnin úr árvatninu og eru mikilvægasta ætið í ánni. Kvenflugurnar sjúga blóð úr kvikfé og fólki og fá þannig næringu til æxlunar.

Fyrst er rétt að gera grein fyrir hvaða flugur eru flokkaðar sem mýflugur. Mýflugur eru undirættbálkur (Nematocera) í ættbálki tvívængja (Diptera) sem hafa langa þráðlaga fálmara, eru oft með mjóan búk og flestar smáar. Í þessum undirættbálki eru meðal annars moskítóflugur (Culicidae), rykmý, bitmý, hrossaflugur, sveppamý og fleiri.

Hérlendis eru án efa tvær ættir mýflugna þekktastar, rykmý og bitmý. Bitmý gengur reyndar undir nokkrum nöfnum, til dæmis bitmý, bitvargur og vargur. Til eru fjórar tegundir á Íslandi af bitmýi, en aðeins ein þeirra sýgur blóð úr spendýrum, að meðtöldum mönnum. Mestan hluta lífsferilsins eyðir bitmýið sem lirfa á botni straumvatna. Þar festa lirfurnar sig við undirlagið og fanga og éta það sem rekur ofar úr vatnakerfinu. Því er mergð bitmýs jafnan mest þar sem mest magn lífrænna agna flýtur um, eins og við útfall frjósamra stöðuvatna, til dæmis efst í Elliðaánum eða í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu við Mývatn. Lífsferill bitmýsins getur tekið allt frá nokkrum vikum upp í eitt ár. Fljótlega eftir mökun verpa flugurnar og eru eggin fullþroskuð þegar kvenflugan skríður úr púpunni.

Af hverju bítur mýbitið?

Það eru einungis kvenflugurnar sem bíta og þær gera það eftir að þær hafa verpt í fyrsta skipti. Þá þurfa þær orku til að mynda fleiri egg. Eftir fyrsta varp eru þær um það bil helmingur til 2/3 af upprunalegri þyngd, með grannan búk og geta flogið langar leiðir, oft 10 til 20 km í leit að spendýri til að sjúga blóð. Orku til flugsins fá þær úr blómasykri, en fullorðin karldýr fá alla sína orku úr blómasykri. Til að leita uppi spendýrið laðast þær að koltvísýringi, sem skýrir hví þær sækja til að mynda í andlit manna.

Er einhver viss árstími sem flugan bítur frekar?

Á Íslandi flýgur bitvargurinn á Norðurlandi í júníbyrjun. Ef mikið er af lífrænu reki sem lirfurnar geta nýtt sér flýgur önnur kynslóð í júlí til september. Bestu skilyrði til þess að bitmýið fljúgi eru hægviðri, hlýindi og mikill raki, til dæmis eftir skúr.

Af hverju virðast flugurnar bíta suma en ekki aðra?

Þessu verður ekki svarað hér nema á þá lund, að líklegt er að flugurnar fari ekki svo mjög í manngreinarálit sem margir vilja ætla, heldur sé það ónæmissvörun okkar eftir að flugan hefur lokið sér af sem greinir menn í sundur.

Eru fræðirit sem ég get flett í?

Það er til mikill fjöldi greina og jafnvel heilar bækur um flugur þessar, því ekki má gleyma mikilvægi þeirra í lífkeðju straumvatna þar sem bæði fuglar og fiskar nýta sér bitmýið til vaxtar og viðhalds. Af innlendum heimildum um bitmý má nefna kafla í eftirtöldum bókum þar sem fjallað er um bitmý ásamt öðrum vatnaskordýrum:

Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson (ritstj.), Náttúra Mývatns. Hið íslenska náttúrufræðifélag, 1991.
Helgi Hallgrímsson, Veröldin í vatninu. Námsgagnastofnun, 1990.
Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson (ritstj.), Pöddur. Rit Landverndar nr. 9, 1989.
Jón Ingi Ágústsson, Veiðiflugur Íslands. Reykholt, 1997.

Silungurinn

Mývatn er með þekktustu veiðivötnum hér á landi, enda er silungsveiði þar oft mikil og silungurinn vænn. Þegar talað eru um silung er átt við tvær skyldar fisktegundir í einu, urriða og bleikju. Báðar tegundir eru í Mývatni. Þriðja fisktegundin í Mývatni er hornsíli. Í Laxá er urriðinn aðalfiskurinn í efri hlutanum en lax gengur í neðri hluta árinnar.

 

 

Bleikja

Bleikjan er þýðingarmesti veiðifiskurinn. Af henni eru tvö afbrigði í Mývatni þ.e. venjuleg bleikja og það sem heimamenn kalla krús. Krúsin er fremur smávaxin, verður sjaldan meira en 25 cm, dökk yfirlitum með snubbótt trýni og dálítið undirmynnt. Krúsin heldur sig nær eingöngu við lindasvæðin í vatninu suðaustanverðu. Er hún talin óæt. Dvergvaxið bleikjuafbrigði, gjáarlonta, finnst í hraunhellum við vatnið, ríflega fingurstórir fiskar, sem líkjast seiðum í útliti.

Bleikjan hrygnir á tímabilinu október-desember. Riðin (hrygningarstöðvarnar) eru einkum á malarbotni á köldu lindasvæðunum við suðaustanvert vatnið, en einnig á grunnum annars staðar í Syðriflóa. Krúsin virðist hrygna lítið eitt seinna. Seiðin klekjast á útmánuðum og dveljast ofan í mölinni þar til þau eru laus við kviðpokann. Lítið er vitað um ferðir þeirra eftir að þau hverfa af riðunum.

Bleikjan vex hratt í Mývatni. Hún lengist um 7-8 cm á hverju ári fyrstu 4-5 árin en síðan dregur úr vextinum. Bleikjan verður kynþroska á 4. ári og er þá röskir 30 cm á lengd. Meirihluti hrygna sem orðnar eru 35 cm er orðinn kynþroska. Sú bleikja sem kemur í net er mest fjögurra til fimm ára fiskur, 30-50 cm langur  (0,7-1 kg). Árin 1933-34 var 5-7 ára bleikja algengust í veiðinni.

Bleikjan getur nýtt sér ýmsar átutegundir og fer fæðuvalið eftir árstímum og hvar í vatninu hún heldur sig. Einnig er munur milli ára. Mýlirfur og púpur eru mikið étnar á vorin en krabbadýr um hásumarið, helst kornáta, skötuormur og langhalafló.  Hornsíli og vatnabobbar virðast síður eftirsótt en eru aftur á móti aðalfæða urriðans í Mývatni.

Mývetningar nota mismunandi nöfn á silunginn eftir stærð hans og ásigkomulagi. Sum nöfnin eru ekki notuð í öðrum héruðum. Silungur er vanalega nefndur branda við Mývatn. Ljósabranda er ung bleikja. Hrygnan er nefnd gála, smásilungur lonta eða kræða. Birtingur kallast ljós og stór bleikja sem ekki gengur á rið og maraslápar eru magrar bleikjur frá stöðum þar sem mikill gróður er á botni.

 

Hornsíli

Hornsílastofn Mývatns getur orðið mjög stór og sjást þá stórar torfur ganga með löndum. Hornsílin nærast einkum á smávöxnum krabbadýrum og mýlirfum.

 

 

Urriði

Urriðinn er einkum í Ytriflóa og hrygnir mest á uppsprettusvæðinu sunnan við Voga. Laxá er annars höfuðból urriðans. Áin er tvímælalaust besta urriðaveiðiá landsins og þótt víðar væri leitað. Aðalfæða urriðans í Laxá eru bitmýslirfur og púpur, og fer ástand stofnsins mikið eftir því hvernig árar fyrir bitmýið.

 

Lax- og silungsveiði

Neðan Laxárvirkjunar, í Laxá í Aðaldal, er laxinn aðalfiskurinn og áin í hópi frægustu laxveiðiáa.

Byggð við Mývatn hefur lengst af verið háð silungsveiði. Silungurinn er nú mest veiddur í lagnet á sumrin, en notkun þeirra hefur tíðkast í aldaraðir á Mývatni. Einnig er talsvert veitt á dorg, þ.e. á færi niður um ís, síðari hluta vetrar. Á dorgina var beitt fiskiflugumaðki áður fyrr, en rækja er mest notuð nú til dags. Sumir veiða einnig með lagnetjum undir ísi á veturna.

Fyrr á síðustu öld var riðsilungurinn tekinn í fyrirdráttarnet á haustin (dráttarveiði). Einnig bar nokkuð á því í miklum sumarhitum að bleikja sækti inn á lindasvæðin. Var sá silungur nefndur hitasilungur og tekinn í fyrirdráttarnet. Þá var fyrirdráttur stundaður á vetrum undir ísi, einkum nálægt vökum við landið.

Hver jörð átti sín vissu lagnastæði fyrir lagnetin. Flest eða öll voru þau við grunn eða hnykla er hétu sínum nöfnum. Gilti þetta þangað til breytingar urðu með tilkomu nýrra neta um 1930. Fram að þeim tíma spunnu menn sjálfir efnið í lagnetin. Baðmullarnet komu til sögunnar um eða nokkru fyrir 1930 og nælonnet um 1950. Nú eru eingöngu notuð girnisnet, en þau komu um 1960. Utanborðsvélar urðu algengar í kringum 1950 og var þá farið að sækja lengra út á vatnið til veiða en áður tíðkaðist.

Frá fornu fari hefur hverri jörð sem liggur að vatninu tilheyrt eitt dráttarmál (60 faðmar) frá landi en þar fyrir utan var almenningur sem allir hreppsbúar virðast hafa haft jafnmikinn aðgang að. Dorgarganga hefur löngum verið tíðkuð á veturna í almenningi vatnsins, bæði af innan- og utansveitarmönnum.

Miklar breytingar hafa verið í aflabrögðum. Árin 1864-1874 og 1920-1926 eru í minnum höfð sem aflaár. Á síðara tímabilinu veiddust nærri 100 þúsund silungar á ári þrjú ár í röð. Annars hefur veiðin oftast verið 20-40 þúsund silungar á ári, en hefur farið minnkandi hin síðari ár (eftir 1970) og nú um stundir er afar lítil bleikjuveiði í vatninu. Sveiflur í aflabrögðum hefur mátt rekja til ofveiði og átubreytinga.

Eins og nærri má geta hafa skapast ákveðnar hefðir í sambandi við verkun silungsins. Nú til dags er silungurinn einkum soðinn nýr eða settur í reyk. Reyktur silungur nefnist saltreyð. Silungurinn er fyrst flattur þannig að flökin hanga saman á stirtlu og kvið. Síðan er hann stráður salti og látinn liggja í sólarhring. Þá eru hann hengdur á rá þannig að holdið snýr út og reyktur við tað í reykhúsi.

https://ramy.is/natturufraedi/fiskar/