Þingmannaleið

Share this

Hæð yfir sjó: 123 m við upphaf í Systrahvammi, 701 m hæst á Vaðlaheiði, 31 m í lok við Eyrarland
Vegalengd: 10,75 km

Upphafspunktur og bílastæði: Systragil í Fnjóskadal

Þingmannaleið (áður Þingmannavegur) var alfaraleið milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar. Leiðin lá úr Ljósavatnsskarði yfir Fnjóská á vaði nyrst í Hróastaðanesi í Vaglaskógi. Þaðan var haldið yfir Vaðlaheiði og komið niður sunnan við Búðarlág við bæinn Eyrarland í Eyjafirði. Þar var haldið Vaðlaþing sem var eitt af fjórum fjórðungsþingum á Norðurlandi. 

Hin forna Þingmannaleið liggur frá bænum Hróarsstöðum í Fnjóskadal yfir Bæjargil og upp með Systragili. Héðan liggur leiðin meðfram læknum og upp með Bæjargili að norðan. Fylgt er gulum stikum sem eru rauðar í toppinn inn á hina fornu Þingmannaleið rétt áður en farið er yfir Bæjargil. Gengið er í um 2 km þar til komið er að girðingu, en farið er yfir hana á tröppum (prílu). Þá er haldið í suður yfir Systralæk og upp með Systragili að sunnanverðu. Leiðin er stikuð þar til marka fer fyrir vegarruðningi og greinilegri vörðum. Þingmannaleið hefur verið þétt vörðuð svo að víðast hafa verið um 70 - 80 metrar á milli varða.
Á neðri heiðarbrún (stalli) eru tvö vörðubrot báðum megin vegarins og eru um 50 metrar á milli þeirra. Heita þær Systravörður. Ekki er vitað hvernig nafnið er til komið né önnur örnefni tengd systrum. Áfram er gengið upp með Systragili að sunnanverðu eftir vegslóða. Skömmu eftir að efri heiðarbrún (stalli) er náð liggur leiðin fyrst til suðvesturs og síðan í vestur eftir Systragilshrygg. Þar var gerður upphlaðinn vegur á um 300 metra kafla með yfirbyggðu ræsi sem nú er fallið. Stuttu eftir að Þingmannaleið liggur yfir Systragilsdrag er mikið mannvirki úr hellum og grjóti. Grjóthleðslan er frá árinu 1871, vel og haganlega hlaðin, um 20 metrar að lengd og 3,25 metrar að breidd. Brúin var mikil samgöngubót en á þessum árum var Þingmannavegur aðal samgöngu- og póstleiðin á milli Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu. Ofan á brúnni eru allstórar hellur og malarlag á milli þeirra, sem hefur að mestu skolast burt. Þegar komið er yfir brúna er hægt að ganga í norður eftir gönguleið sem vísar á Menntaskólavörðu.
Áfram er gengið í vestur eftir varðaðri og upphlaðinni leið, um 500 metra kafla með yfirbyggðu ræsi. Þá er haldið í suðvestur þar til komið er á melás, svokallaðan Járnhrygg (680 m) en þá er háheiðinni náð. Hér opnast mikil fjallasýn til suðvesturs og vesturs. Í norðvesturátt blasir við Varðgjárvatn en það þornar oftast upp er líður á sumarið. Þegar komið er á suðurenda hryggjarins beygir Þingmannaleið í vestur. Fer landið þar mjög lækkandi. Komið er fram á heiðarbrúnina norðan við Þingmannahnjúk. Þingmannalækur fellur niður norðan við hnjúkinn í allmiklu gili og er leiðin norðan þess í fyrstu. Þingmannaleið var ekki vörðuð lengra, en skammt neðan við brúnina er farið suður yfir gilið. Nokkru síðar liggur leiðin í norður yfir tvær lækjarsprænur og síðan niður hlíðina Eyjafjarðarmegin. Þá er komið að girðingu en farið er yfir hana á tröppum (prílu) og þaðan er fylgt slóða á norðurbarmi Litlagils niður að bænum Eyrarlandi (65°39,69 - 18°02,11).

Address
Hróarstaðir