Lífríkið

Fuglalíf

 

Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur. Mikið og fjölbreitt fuglalíf einkennir svæðið í kringum Mývatn og Laxá. Þar eru vatna- og votlendisfuglar en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Svæðið er því sannkölluð paradís fyrir fuglaunnendur og við mælum með því að fjölskyldur taki sér tíma í að skoða fuglalífið og leyfi börnunum að kynnast ótrúlegu lífríki svæðisins. 

Hér eru fimm bestu staðirnir til að skoða fuglalífið við Mývatn. #VisitMyvatn #NjótumSaman


Fyrst má nefna að Fálkann má oft sjá í kring um vatnið í leit að bráð. Ef keyrt er hringinn í kring um vatnið að þá mælum við með: 

1. Neslandavík, þar sem Fuglasafn Sigurgeirs er að finna. Þar má oft sjá stóra hópa af skúföndum og rauðhöfðum. Þetta svæði er líka einstaklega gott til að sjá gargendur, duggendur, lóma, flórgoða, grafendur og toppendur. Frábær staður til fuglaskoðunar og við mælum að sjálfsögðu með því koma við á Fuglasafninu. 

2. Álar, Þar eru svipaðar tegundir og í Neslandarvíkinni en líka oft hægt að sjá sjaldgæfari fugla eins og húsöndina, hávellu og himbrima. 

3. Laxá. Um 50 metrum frá brúnni sem liggur yfir Laxá er bílastæði. Þaðan getur þú gengið að bökkum árinnar þar sem þú verður ekki lengi að finna straumöndina. Laxá er stærsti bústaður húsandarinnar og straumandarinnar á Íslandi. 

4. Skútustaðir og Stakhólstjórn. Hér má finna fjölmargar tegundir. Leggðu bílnum og skoðaðu fuglana á meðan þú gengur um gígana. 

5. Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn og talinn með fegurstu stöðum við vatnið. Útsýni frá Höfðanum er allgott og kjörinn staður til fuglaskoðunar og gönguferða með allri fjölskyldunni.

Ef að þú hefur áhuga á að skoða fugla á öðrum stöðum er best að hafa samband við viðeigandi landeigendur. 

Mýflugan

Nafnið Mývatn er ekki úr lausu lofti gripið og mýflugan er eitt af þekktari kennileitum staðarins. Á botni Mývatns er urmull af mýflugulirfum. Tvisvar á sumrin, einkum í byrjun júní og ágúst, púpa þær sig og hin vinalega mýfluga hertekur svæðið. Karlflugurnar safnast í þétta stróka á vatnsbökkum og yfir hólum og hæðum á kyrrum dögum. Þessar mýflugur nefnast rykmý og eru meinlausar.

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin skoppar í smáfossum með lygnum pollum á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn og víði. Laxá er frjósamasta straumvatn á Íslandi og þar eru heimkynni mývargsins og hann getur nartað í fólk. 

Hann er mikilvæg fæða bæði fugla og fiska. Það er því hætt við því að náttúrufar væri með öðrum hætti ef litla vargsins nyti ekki við. Á Norðurlandi flýgur bitmýið í byrjun júní, ef það er mikið af fæðu getur önnur kynslóð bitmýs flogið í júlí til september. 

Mýið er misjafnlega mikið milli ára. Sum árin er sveitin kvik af flugu og geta mýmekkirnir orðið svo þykkir að ekki sést milli bæja. Önnur ár sést varla fluga á sveimi.

 

Fiskurinn

Mývatn er með þekktustu veiðivötnum hér á landi, enda var silungsveiði mikil og fiskurinn vænn. Í vatninu má finna urriða, bleikju og hornsíli. Í Laxá ræður urriðinn ríkjum í efri hluta árinnar en neðan Laxárvirkjunar í Aðaldal, er það laxinn og áin í hópi frægustu laxveiðiáa landsins. Byggð við Mývatn var lengst af háð silungsveiði. Mývatn og Laxá eru vernduð með sérstökum lögum og á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Silungurinn er nú mest veiddur í lagnet á sumrin, en notkun þeirra hefur tíðkast í aldaraðir á Mývatni. Einnig er talsvert veitt á dorg, þ.e. á færi niður um ís, síðari hluta vetrar.