Skútustaðahreppur

Skútustaðahreppur

Í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit eru skráðir íbúar 520 þann 1. janúar 2019. Þar af búa um 200 í þéttbýlinu í Reykjahlíð. Skútustaðahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, er hálendasta og víðlendasta sveitarfélag landsins sem nær upp á miðjan Vatnajökul, en byggð er nánast öll í Mývatnssveit.

 

Náttúrufar sveitarfélagsins hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og má þar helst nefna Mývatn, Dimmuborgir, jarðhitasvæði, leirhveri og Ódáðahraun. Lífríki og landslag svæðisins er mótað af mannvist í þúsund ár og á sér djúpar rætur í landbúnaði sem að mörgu leyti byggðist á þeim sérstöku hlunnindum sem þar eru, en glímdi einnig við harðneskju hins eldbrunna landslags. Vel varðveittar og mjög fornar byggðarminjar er víða að sjá.
Stefna sveitarfélagsins er m.a. að vera í fararbroddi meðal íslenskra sveitarfélaga í umhverfisstarfi og umhverfisvernd og jafnframt að vera aðlaðandi ákvörðunarstaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn til að njóta hinnar einstöku náttúru í sveitarfélaginu. Sérstök áhersla er lögð á verndun fuglalífs og lífríkis vatna og áa sbr. lög um verndun Laxár og Mývatns.