Free concert at the Bird Museum

Laufey og Páll flytja tónlist í Fuglasafninu föstudaginn 27. júlí kl 20:00. Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir! 

Free concert at the Bird Museum friday July 27, 2018 at 8:00pm.

Laufey Sigurðardóttir – fiðla/violin
Páll Eyjólfsson – gítar/guitar

Laufey Sigurðardóttir lauk einleikaraprófi 1974 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Að því loknu stundaði hún sex ára framhaldsnám í Boston hjá próf. G. Neikrug. Auk þess dvaldi hún um skemmri tíma m.a. 1980 hjá Grumiaux í Belgíu og árið 1984 í Róm sem styrkþegi ítalska ríkisins. Laufey hefur verið fastráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1980 og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitinni, Osló Sinfóníetta, haldið sjálfstæða tónleika vítt og breitt um landið sem og erlendis og verið virk í þátttöku kammertónlistar. Hún hefur frá upphafi skipulagt tónlistarhátíðina „Músík í Mývatnssveit” og frá árinu 1997 hefur hún skipulagt Mozart-tónleika í Reykjavík.

Páll Eyjólfsson er fæddur í Reykjavík 1958. Hann lauk einleikaraprófi á gítar frá Gítarskólanum, Eyþóri Þorlákssyni og hliðargreinum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. 
Páll fór í framhaldsnám til Alcoy á Spáni þar sem hann nam í einkatímum hjá José Luís González, sem var einn af nemendum Andrés Segovia. 
Fjölmargir tónlistarnemar hafa sótt gítartíma til Páls í ýmsum tónlistarskólum í Reykjavík, en hann hefur samhliða kennslunni haldið tónleika víðsvegar um landið og í nokkrum Evrópulöndum.
RUV hefur gert upptökur með leik hans m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, gítarkonsert eftir John A. Speight, og áður hafa komið út geisladiskar þar sem Páll spilar með öðrum hljóðfæraleikurum. 

Efnisskrá: 

A. Vivaldi: Sónata
Niccolo Paganini: Sónata
Cantabile
Sigfús Halldórsson: Þrjú sönglög útsett af Atla Heimi Sveinssyni
F. Chopin: Vals í a-moll op.34, nr. 2
Tvær nocturnur
J. A. Speight: Samtvinna (frumflutningur)
Astor Piazzolla: Tveir tangóar 

Verkefnin spanna tímabilið frá barokk-tímanum til okkar daga. 
Sónatan eftir Vivaldi er samin fyrir fiðlu og fylgirödd og hefur Páll umskrifað hana fyrir gítar. 
Paganini var ítalskur fiðlusnillingur og samdi þessi verk fyrir fiðlu og gítar.
Atli Heimir Sveinsson útsetti þessi þrjú sönglög sérstaklega fyrir Laufeyju og Pál og frumfluttu þau lögin við opnum Hörpu.
Þessi frægu verk e. Chopin umritaði Páll fyrir fiðlu og gítar.
Samtvinna eftir J. Speight er nýtt verk samið fyrir Laufeyju og Pál og er um frumflutning að ræða.
Piazzolla samdi fjöldan allan af tangóum fyrir hin ýmsu hljóðfæri og er annar tangóinn umritaður fyrir fiðlu og gítar af Páli.